FÝLUPÚKI

Ég vaknaði áðan, þungur og þreyttur. Ég veit ekki eftir hvað ég var þreyttur, varla eftir vinnuna þar sem maður kemst upp með það að safna spiki á rassinn alla vaktina. Klukkan var fimm mínútur í sjö þegar ég staulaðist framúr. Halli sat fyrir framan imbann og flakkaði milli rása. Hann er svo stoltur af sjónvarpinu sínu. Ég kastaði á hann kveðju og hann útskýrði fyrir mér mjög ánægður, í mörgum orðum, eiginlega of mörgum orðum, að nú væri hann búinn að eignast íbúð og kaupin hefðu gengið eins og í ævintýri. Á meðan ég hlustaði á ævintýrið nálgaðist rútan sem ég tek í vinnuna og þá var vissara að hafa hraðan á en Halli hélt áfram sínum útskýringum á kaupunum og ég einhvern veginn var ekki að komast áleiðis í mínum eigin áætlunum. Ég átti eftir að fara á salernið, og pakka niður tölvunni. Ég tók í spaðan á Halla og óskaði honum til hamingju með kofann og hljóp inn á bað og meig og Halli þagnaði. Nú var orðið of seint að taka rútuna, ég einfaldlega nennti ekki að vera á hlaupum, mér var nær að koma mér ekki fyrr á fætur. Ég var enn “grumpy” þegar ég hlammaði mér við sjónvarpið. Fréttir og allt það. Næturvakt framundan.
Við Halli fórum í sjoppuna. Ég pantaði mér eina pulsu með öllu nema hráum og Pepsí með. Eftir sex mínútur var ég orðinn dálítið leiður yfir því að pulsan skyldi ekki vera tilbúin en auðvitað kom hún en þá fékk ég tvær. Eitthvað var frúin verið að flækja málin fyrir sér. Ég ákvað að gera ekki mikið mál út af þessu og borgaði allt. Tvær pylsur og tvær Pepsí í gleri, önnur opin. Halli varð eftir í sjoppunni.
Ég ætlaði varla að getað sest inn í bílinn og hvað þá að geta lagt allt góssið frá mér en eftir smá hugsun og basl gekk það eftir en var allur kámaður í remúlaði. Þegar þarna var komið, var mér farið að hitna í hamsi eftir viðskiptin og brasið við að komast inn í bílinn.  Svo var ekið af stað með pulsuna í kjaftinum og remúlaði á fingrunum. Ég gat ekki lagt pulsuna frá mér því ekki vildi ég fá remúlaði í sætið og nákvæmlega það gerði mig enn meira fúlan.  Sem betur fer er bíllinn sjálfskiptur.  Gremjan óx í hvert skipti er ég tuggði pulsuna sem var með hráum lauk en ekki steiktum eins og ég hafði beðið um og ekki gat ég teygt mig eftir Pepsíinu án þess að eiga hættu á því að missa stjórn á bílnum. Ég fann að ég hitnaði allur í framan og það kom að því að ég sprakk og öskraði eins og ljón með sebrahest í kjaftinum, nema ég var með pulsu og remúlaði í kjaftinum.
Ég dauðskammaðist mín í nokkrar sekúndur en viðurkenndi að það var ákveðin fullnæging í þessari “happening”.  Þetta var svona smá andleg hreinsun.
Ég svolgraði í mig Pepsíinu og byrjaði á seinni pulsunni sem var enn meir klístruð. Gremjjan byrjaði aftur að ólga.  Ég var orðinn seinni í vinnuna en ég ætlaði mér og ég tók eftir því að leifar af fyrri pulsunni og remúlaðinu hafði frussast á stýrið, mælaborðið og gírstöngina þegar ég gargaði áður. Nokkur viðeigandi orð hljómuðu um bílinn og nágrenið.
Þunglyndið og fýlan var yfirþyrmandi þegar ég kom í hlaðið. Toffy vinnufélagi minn hafði ætlað að koma með eitthvað gott, bakkesli eða annað því hún átti afmæli. Mærin orðin 25 ára. Ég skammaðist mín dálítið fyrir að hafa etið á mig gat en ég varð að taka afleiðingunum eins og karlmanni sæmir.
Lena, Mófi og Sindri hinir vinnufélagarnir voru úti að viðra börnin. Ég heilsaði upp á þau og klappaði hundunum sem sprikluðu út um allt með rófuna á fullu. Þessi dýr eru svo saklaus. Það er varla að þau viti hvað andleg fýla er eða hvaða tilgangi hún þjónar.  Þessi stórfjölskylda var kvödd og áður enn ég vissi, var fýlan úr mér horfin en belgurinn á mér var samt út þaninn.
Sem betur fer var afmælisveisla Toffyar síðbúin og pulsan og remúlaðið komið góða leið um meltingarveginn.  Toffy bauð okkur Gunnza upp á dýrindis skúffuköku, nýmjólk og góða skapið
.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Toffy

Skúffan var góð :) er einmitt með aðra hérna heima hálf étna núna :D hehe

Toffy, 25.6.2008 kl. 11:58

2 Smámynd: Hilmir Arnarson

Þú ert á fullu í Boot Camp og svo bakarðu bara köku?!

Hilmir Arnarson, 25.6.2008 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband